Connect with us

Hi, what are you looking for?

Ísland

Spáin: Úrvalsdeild karla 2021-2022

2021-2022 tímabilið í [Insert sponsor name here]-deild karla er handan við hornið og því ákváðum við að kasta saman í eina afar vísindalega samsetta spá sem er þó með þeim fyrirvara að við vitum ekkert hvað við erum að tala um.

12. Vestri

Vestfirðingar eru mættir aftur í Úrvalsdeildina í fyrsta sinn síðan 2013-2014 tímabilið eftir að hafa endað í fjórða sætinu í 1. deildinni á síðustu leiktíð. Í ár eru þeir með hóp sem gæti mögulega skilað þeim fjórða sætinu.

Í 1. deildinni.

En það skiptir engu máli. Það eina sem skiptir máli verður þegar Vestfjarðartröllið Nemanja Knezevic mætir Ísafjarðartröllinu Sigurði Gunnari Þorsteinssyni á Jakanum í vetur.

Vestri Vs. Tindastóll. Sviðsett mynd.

Komnir: Julio de Assis (Spánn), Actions Raposo (Breiðablik), Marko Jurica (Sindri Höfn)
Farnir: Marko Dmitrovic (Króatía), Gabriel Adersteg (Sindri Höfn)

11. Þór Akureyri

Við spáðum því að liðið myndi falla vorið 2020. Vorum svo handvissir að þeir myndu falla vorið 2021.

Allt er þegar þrennt er. Þórsarar falla vorið 2022. Guaransheed!

Komnir: Bouna N‘Daiye (Noregur), Eric Fongue (Sviss), Jonathan Lawton (Írland), Dúi Þór Jónsson (Stjarnan), Dedrick Basile (Njarðvík), Baldur Örn Jóhannesson (Njarðvík), Jordan Blount (Spánn)
Farnir: Júlíus Orri Ágústsson (USA), Ivan Aurrecoechea (Grindavík), Dedrick Basile (Njarðvík)

10. Breiðablik

Þetta hefur yfirleitt verið frekar einfalt. Vatnið er blautt, himininn er blár og Breiðablik fellur á vorin. Nema þetta vor hafa þeir Everage Richardson.

Og Vestra.

Og Þór Akureyri.

Komnir: Everage Richardson (ÍR), Danero Thomas (ÍR), Sinisa Bilic (Valur)
Farnir: Alex Rafn Guðlaugsson (Haukar), Actions Raposo (Vestri), Kristján Leifur Sverrisson (Haukar)

9. ÍR

Velkomnir aftur heim í 9. sætið! ÍR-ingar eru komnir hring með því að hafa farið úr liðinu sem var ekki nógu lélegt til að falla en ekki nógu gott til að komast í úrslitakeppnina í lið sem fór í úrslitin um Íslandsmeistaratitilinn og núna aftur í meðalmennskuna.

Komnir: Daði Berg Grétarsson (byrjar aftur), Róbert Sigurðsson (Álftanes), Breki Gylfason (Haukar), Tomas Zdanavicius (Litháen), Shakir Smith (Portúgal), Modestas Žaunieriūnas (Litháen)
Farnir: Everage Richardson (Breiðablik), Danero Thomas (Breiðablik), Ólafur Björn Gunnlaugsson (USA), Evan Singeltary (Úkraína)

8. KR

Tónlistin er hætt, búið að kveikja ljósin og dyraverðirnir eru að kasta öllum út. Gullaldartímabili KR er formlega lokið.

Engar áhyggjur samt, það er eftirpartý í Valsheimilinu!

Komnir: Dani Koljanin (Króatía), Shawn Derrick Glover (Tindastóll), Adama Darboe (Danmörk)
Farnir: Jakob Örn Sigurðarson (Hættur), Ty Sabin (Ítalía), Helgi Már Magnússon (Hættur), Ísar Freyr Jónasson (Selfoss), Matthías Orri Sigurðarson (Pása? Hættur?)

7. Grindavík

Annað ár, annað miðlungs tímabil í Grindavík sem endar með útslætti í átta liða úrslitunum.Komnir: Ivan Aurrecoechea (Þór Akureyri), Naor Sharon Sharabani (Ísrael)
Farnir: Marshall Nelson (Ástralía), Dagur Kár Jónsson (Spánn)

6. Þór Þorlákshöfn

Sjaldan hafa Íslandsmeistarar misst jafn mikið af sínum kjarna og Þór Þorlákshöfn gerði í sumar. Af átta manna kjarna liðsins eru fimm farnir, þar af fjórir byrjunarliðsmenn. Því má búast við einhverju á bilinu sjö sigrar og kannski sæti í úrslitakeppninni upp í Íslandsmeistaratitil.

Komnir: Daniel Mortensen (Danmörk), Ronaldas Rutkauskas (Frakkland), Glynn Watson Jr. (Grikkland), Luciano Massarelli (Spánn)
Farnir: Styrmir Þrastarson (USA), Callum Lawson (Valur), Larry Thomas (Lettland), Adomas Drungilas (Eistland), Halldór Garðar Hermannsson (Keflavík), Ingimundur Orri Jóhannsson (Stjarnan)

5. Valur

Klappstýrur reglna um að banna sem flesta útlendinga í deildinni eru í smá vanda því allur bekkurinn þeirra var að skipta yfir í Ármann. Fasteignaveldið á þó fullt af peningum til að kaupa sig úr þeim vandræðum en þó ekki frá KR því lagerinn þar er orðinn ansi tómlegur. Í staðinn versluðu þeir Pablo Bertone frá falliði Hauka og Kára Jónsson sem einnig spilaði einu sinni með Haukum.

Komnir: Kári Jónsson (Spánn), Pablo Bertone (Haukar), Callum Lawson (Þór Þorlákshöfn), Sveinn Búi Birgisson (Selfoss), örugglega einhverjir KR-ingar
Farnir: Jón Arnór Stefánsson (Hættur), Miguel Cardoso (Portúgal), Oddur Birnir Pétursson (Ármann), Illugi Steingrímsson (Ármann), Snjólfur Björnsson (Ármann), Sinisa Bilic (Breiðablik), Finnur Atli Magnússon (Haukar)

4. Tindastóll

Verður þetta árið sem kaup­félags­peningur­inn skilar titlum og hamingju í stað grátlegra vonbrigða?

Það besta sem við búumst við er heimaleikjaréttur í fyrstu umferð sem endar svo með öruggu tapi því aðalstjarnan meiddist eða gleymdi hvernig á að spila körfubolta.

Komnir: Thomas Kalemba-Massamba (Belgía), Javon Bess (USA), Taiwo Badmus (Spánn), Sigtryggur Arnar Björnsson (Spánn), Sigurður Gunnar Þorsteinsson (Höttur), Eyþór Lár Bárðason (Hamar)
Farnir: Jaka Brodnik (Keflavík), Antanas Udras (Úkraína), Flenard Whitfield (Finnland), Nick Tomsick (Króatía)

3. Keflavík

Við erum ekki að segja að menn séu búnir að gefa upp alla von um að vinna aftur titil í Keflavík, við erum bara að benda á að lestarstjórinn sjálfur er tilbúinn að kasta inn handklæðinu og sameinast Njarðvík.

Njarðvíkingar voru hins vegar að vinna stóran titil og eru að fá nýjan heimavöll þannig að það er ólíklegt að þeir hafi einhvern áhuga en móti gætu Keflvíkingar alltaf sameinast Reyni Sandgerði.

Komnir: Jaka Brodnik (Tindastóll), Halldór Garðar Hermannsson (Þór Þorlákshöfn), David Okeke (Georgía)
Farnir: Deane Williams (Frakkland)

2. Stjarnan

Félagið sem vildi ekki halda úti kvennaliði því það átti ekki nógu marga uppalda var að missa alla uppöldu ungu leikmennina úr karlaliðinu því þeir fengu ekkert að spila.

Það hefur þó engin áhrif á liðið því Garðabæjargullið sér um að redda í róteringuna sem þessir gaurar voru aldrei á leiðinni í.

Komnir: Shawn Hopkins (Finnland), Hilmar Smári Henningsson (Spánn), Ragnar Nathanaelsson (Haukar), David Gabrovsek (Slóvakía), Ingimundur Orri Jóhannsson (Þór Þorlákshöfn), Robert Turner III (Frakkland)
Farnir: Ægir Þór Steinarsson (Spánn), Mirza Saralilja (Fjölnir), AJ Brodeur (Belgía), Alexander Lindquist (Svíþjóð), Dúi Þór Jónsson (Þór Akureyri), U-20 liðið

1. Njarðvík

Liðið sem var á barmi gjaldþrots fyrir korteri síðan var að fjárfesta í þremur leikmönnum sem hafa gert það gott í spænsku efstu deildinni. Boom! Fyrsti stóri titillinn kominn í hús. Og svo voru menn að tala um þegar verst lét á síðasta tímabili að kannski væri bara best að loka sjoppunni og sameinast Keflavík.

Komnir: Haukur Helgi Pálsson (Spánn), Nicolas Richotti (Spánn), Dedrick Basile (Þór Akureyri), Fotios Lampropoulos (Quatar), Snjólfur Marel Stefánsson (USA)
Farnir: Kyle Johnson (Kanada), Adam Eiður Ásgeirsson (Höttur), Baldur Örn Jóhannesson (Þór Akureyri)

Hittum við naglann á höfuðið eða erum við algjörlega út á túni? Hraunaðu yfir okkur á Facebook eða Twitter.

Og yfir í allt annað

Ísland

2021-2022 tímabilið í Subway-deild kvenna byrjar í kvöld og því ákváðum við að kasta saman í eina afar óvísindalega samsetta spá sem er þó...

Ísland

Gömlu Reykjavíkurstórveldin KR og ÍR eiga sér langa sögu saman og elduðu grátt silfur lengi vel á upphafsárum körfuboltans á Íslandi en bæði lið...

Ísland

Það hefur líklegast ekki farið framhjá mörgum að Reykjavíkurveldin Valur og KR eigast við í átta liða úrslitum Domino’s deildar karla þessa dagana með...

Ísland

Darryl Lewis með stórkoslega frammistöðu.