Connect with us

NBA

Hversu góður var Brian Scalabrine í raun og veru?

Hversu góður var Brian Scalabrine í raun og veru?

Brian Scalabrine, betur þekktur sem Hvíta Mamban, er goðsögn meðal NBA áhugamanna þrátt fyrir að hafa eytt megninu af ferlinum sem varamaður. Hvort vinsældirnar stöfuðu af persónuleikanum eða eldrauða hárinu er óljóst en hann er einn af fáum mönnum í deildinni sem fékk standandi lófatak í hvert sinn sem hann kom inn á völlinn eða snerti boltann.

Scalabrine spilaði bara 13 mínútur að meðaltali í leik yfir NBA ferilinn og var vissulega ekki í sama gæðaflokki og bestu leikmenn deildarinnar en þýðir það að hann hafi verið lélegur?

Scalabrine með USC.

Hann hóf háskólaferilinn haustið 1996 með Highline College, litlum samfélagsskóla í Washington fylki á vesturströnd Bandaríkjanna. Á sínu fyrsta tímabili var hann með 16,3 stig, 9,6 fráköst, 2,9 stoðsendingar og 1,2 stolna bolta í leik. Hann var með sautján tvennur yfir tímabilið og leiddi liðið í fráköstum, vörðum skotum og vítanýtingu. Eftir tímabilið færði hann sig yfir til University of Southern California (USC) sem spilar í PAC-10 riðlinum í 1. deildinni í NCAA. Á sínu fyrsta tímabili með USC var hann eini leikmaðurinn sem byrjaði í öllum leikjum liðsins og leiddi það í stigaskorun, fráköstum, skotnýtingu og vörðum skotum. Á öðru tímabili sínu var hann valinn í úrvalslið PAC-10 eftir að hafa verið næst stigahæsti leikmaður riðilsins og á sínu síðasta tímabili með liðinu fór hann með það alla leið í 8 liða úrslitin í NCAA.

Frammistaða hans með USC leiddi til þess að hann var valinn af New Jersey Nets í nýliðavalinu 2001. Til að setja það í samhengi þá komast um það bil 3% af menntaskólaleikmönnum í Bandaríkjunum í háskólaboltann og af þeim sem komast þangað eru rétt um 1% sem spila í NBA. Það er þröngur elítuhópur.

Scalabrine lék með Nets á árunum 2001 til 2005.

Meðaltölin hans í NBA voru ekkert til að hrópa húrra fyrir en hann var með 3,1 stig og 2,0 fráköst að meðaltali yfir ferilinn í 520 leikjum. Það segir þó ekki alla söguna því hann lék 11 tímabil í NBA með þremur liðum, fór þrisvar í lokaúrslitin og varð einu sinni NBA meistari.

Mesta stigaskorið hans í einum leik var 29 stig í sigurleik á móti Warriors, hann var lykilmaður í þríframlengdum sigurleik í undanúrslitum NBA og setti í nógu mörg tilþrif yfir ferilinn til þess að fá háuljósamyndband með sér á Youtube síðu deildarinnar þegar hann lagði skóna á hilluna.

Og ekki bara eitt, NBA deildin hlóð í annað nokkrum árum seinna þar sem meðal annars má sjá hann setja Kurt Thomas á plakat.

Ári eftir að Scalabrine lagði NBA skóna á hilluna tók hann þátt í nokkrum 1-á-1 leikjum á móti áskorendum úr röðum almennings sem flestir höfðu reynslu úr menntaskóla-, háskóla- eða atvinnubolta. Tilgangurinn var að gefa gagnrýnendum hans tækifæri á að standa undir stóru orðunum um að þeir gætu léttilega unnið hann. Þeir leikir enduðu ekkert sérstaklega vel fyrir almenninginn.

Og svo pakkaði hann saman þremur sófakartöflum í einu.

Þrátt fyrir að vera kominn á fimmtugsaldurinn þá er Scalabrine hvergi nærri hættur en hann hefur undanfarin ár verið að spila í Big3 deildinni hans Ice Cube þar sem hægt er að sjá hann sýna gamla takta ásamt því að hóta að grafa tvífara sinn hann Michael Rappaport í eyðimörkinni.

Brian Scalabrine er vissulega ekki besti körfuboltamaður allra tíma en hann er meðal afar þröngs hóps sem hefur spilað í bestu körfuboltadeild heimsins og þar lék hann í 11 ár og varð meistari. Í stuttu máli, ef Brian Scalabrine væri íslenskur þá væri hann besti íslenski leikmaður allra tíma og enginn annar væri einu sinni í umræðunni.

More in NBA