Connect with us

NBA

5 bestu leikmennirnir sem aldrei spiluðu í NBA

Þeir hefðu verið meðal þeirra bestu ef ekki hefði verið fyrir landslið, peninga og fíkniefni.

5. Nikos Galis

Nikos Galis

Hinn grísk-ameríski Galis er goðsögn í Grikklandi og ekki af ástæðulausu. Hann var valinn einn af 50 bestu leikmönnum í sögu FIBA árið 1991 og í heiðurshöllina árið 2017. Hann er talinn einn besti skorarinn í sögu Evrópu en hann er stigahæsti leikmaðurinn í sögu EuroLeague og var fjórum sinnum stigahæsti leikmaðurinn á EM. Galis spilaði háskólabolta með Seton Hall og á lokaári sínu var hann þriðji stigahæsti leikmaðurinn í NCAA með 27.5 stig að meðaltali í leik. Hann var valinn í nýliðavalinu 1979 af Boston Celtics en meiddist í æfingarbúðum með liðinu og var látinn fara. Hann hélt því til Grikklands, fæðingarland foreldra hans, þar sem hann varð átta sinnum Grikklandsmeistari og skoraði mest 44,0 stig að meðaltali í leik. Þegar Boston bankaði aftur á dyrnar hjá honum þá hafnaði hann tilboði þeirra sem og tilboði frá New Jersey Nets. Red Auerbach sagði seinna meir að það hefðu verið ein stærstu mistökin á sínum ferli að láta Galis fara.

4. Earl “The Goat” Manigault

Upprunalega geitin var það góður í körfu að Kareem Abdul-Jabbar sagði eitt sinn að hann væri besti leikmaðurinn sem hann hafi mætt á vellinum. Hann komst aldrei í atvinnumannaboltann en skapaði sér stórt nafn í götuboltanum þar sem hann mætti reglulega NBA stjörnum á borð við Earl Monroe, Connie Hawkins og Jabbar og var yfirleitt besti maðurinn á vellinum.

3. Marques Haynes

Boltameðferð Marques Haynes var goðsagnakennd og bæði Bob Cousy og „Pistol“ Pete Maravich hafa nefnt hann sem mikinn áhrifavald á spilastíl þeirra. Sagan segir að Haynes hafi getað dripplað boltanum allt að 348 sinnum á mínútu eða um 6 sinnum á sekúndu. Fljótlega eftir að háskólaferli hans lauk árið 1946 þá gekk hann til liðs við lið Harlem Globetrotters. Þrátt fyrir að Globetrotters sé í dag þekktast sem sýningarlið þá háði það á þessum tíma oft leiki við atvinnumannalið og lagði meðal annars George Mikan og hið al-hvíta Minneapolis Lakers í leik árið 1948 þar sem Haynes lagði upp sigurkörfuna. Árið 1953 fékk hann til boð frá Philadelphia Warriors sem hefði gert hann að öðrum launahæsta leikmanni deildarinnar en hann hafnaði því og árið 1955 hafnaði hann tilboði frá Lakers. Haynes var tekinn inn í frægðarhöll körfuboltans árið 1998.

2. Len Bias

Len Bias eftir að hafa verið valinn af Boston Celtics í nýliðavalinu 1986.

Len Bias er talinn hafa verið eitt allra mesta efni í bandarískum körfubolta eftir háskólaferil sinn með Maryland þar sem hann var með 23 stig og 7 fráköst að meðaltali í leik. Hann var valinn annar af Boston Celtics í nýliðavalinu 1986 en lést daginn eftir af völdum of stórs skammts af kókaíni.

1. Oscar Schmidt

Oscar Schmidt á móti Scottie Pippen.

Oscar Schmidt er án nokkurs vafa besti leikmaðurinn sem spilaði aldrei í NBA en á 29 ára ferli sínum skoraði hann samtals 49.737 stig með félags- og landsliðum. Hann tók þátt í fimm Ólympíuleikum og er stigahæsti leikmaður þeirra frá upphafi, bæði í samtals stigum (1.093) og stigum að meðaltali (28.8). Á Ólympíuleikunum 1988 setti hann met þegar hann skoraði 42,3 stig að meðaltali. Hann fékk fjölda tækifæra til að spila í NBA en hafnaði þeim öllum til að geta haldið áfram að spila með brasilíska landsliðinu en til 1989 máttu atvinnumenn ekki spila með þeim.

More in NBA