Connect with us

Hi, what are you looking for?

Ísland

Fjögurra áratuga klúbburinn

Fjögurra áratuga klúbburinn á Íslandi inniheldur nokkur goðsagnarkennd nöfn

Vince Carter komst í fréttirnar á dögunum fyrir að vera fyrsti NBA leikmaðurinn sem hefur spilaði í deildinni á fjórum mismunandi áratugum. Í kjölfarið tók Vísir.is lista yfir nokkrar kempur sem komust í fjögurra áratuga klúbbinn á árinu 2020.

Þeir eru þó ekki þeir einu í fjögurra áratuga klúbbnum hér á landi en hér fyrir neðan má lesa um nokkrar kempur sem er í klúbbnum eða eru að banka á dyrnar á honum. Listinn er þó ekki teljandi og allar líkur á að hann sé talsvert stærri ef meira en efsta deild er tekin með.

Í efstu deild

Einar Bollason – Goðsögnin Einar Gunnar Bollason hóf ferilinn í efstu deild, þá þekkt sem 1. deild karla, með ÍR undir lok sjötta áratugarins. Síðustu leiki sína í efstu deild lék hann með Haukum tímabilið 1983-1984 en hann var einnig þjálfari liðsins.

Hafdís Helgadóttir – Hafdís lék 363 leiki á 25 tímabilum í efstu deild kvenna með ÍS og Val. Hún lék sinn fyrsta leik tímabilið 1985-1986 með ÍS en með liðinu lék hún til 2007. Í febrúar 2010 komst hún í fjögurra áratuga klúbbinn er hún spilaði rétt undir 20 mínútur í leik með Val á móti Haukum.

Pavel ásamt föður sínum Alexander Ermolinskij fyrir leikinn í Njarðvík.

Pavel Ermolinskij – Pavel var fyrst í leikmannahóp í Úrvalsdeildinni einungis 11 ára að aldri eftir að faðir hans og þjálfari ÍA, Alexander Ermolinskij, valdi hann í 10 manna hóp liðsins fyrir leik þeirra á móti Njarðvík þann 6. mars 1998. Hann kom þó ekki við sögu í leiknum heldur lék hann fyrstu mínúturnar sínar með Skallagrím tímabilið 2001-2002.

Hlynur Bæringsson – Hlynur lék sína fyrstu leiki í efstu deild tímabilið 1997-1998 með Skallagrím.

Logi Gunnarsson – Sama tímabil og Hlynur byrjaði, þá lék Logi sína fyrstu leiki með Njarðvík sem varð Íslandsmeistari þá um vorið.

Helgi Már Magnússon – Tímabilið 1998-1999 var Helgi Már í hóp hjá KR í tveimur leikjum en kom þó ekki við sögu. Tímabilið eftir lék hann sínar fyrstu mínútur í Úrvalsdeild er hann spilaði 10 mínútur í sigri KR á móti Þór Akureyri þann 5. nóvember 1999.

Jakob Örn Sigurðarson – Einn af mörgum KR-ingum á listanum en hann hóf ferilinn með KR tímabilið 1998-1999. Hann komst í klúbbinn þann 16. janúar 2020 í sigurleik á móti Fjölni.

Valur Ingimundarson – Goðsögnin úr Njarðvík lék 20 ár í efstu deild á Íslandi en hann hóf ferilinn með Njarðvík tímabilið 1979-1980. Auk Njarðvíkur lék hann með Tindastól og Skallagrím í efstu deild en hann lauk efstu deildar ferli sínum tímabilið 2002-2003 sem stigahæsti leikmaður Úrvalsdeildar karla frá upphafi.

Þorsteinn Hallgrímsson – ÍR-ingurinn er einn besti leikmaður sem Ísland hefur alið en hann varð níu sinnum Íslandsmeistari með ÍR og fjórum sinnum danskur meistari með SISU BK á ferlinum. Hann lék sinn fyrsta leik í efstu deild árið 1959 og þann síðasta árið 1980.

Marel Örn Guðlaugsson – Leikjahæsti leikmaður efstu deildar frá upphafi hóf feril sinn með Grindavík tímabilið 1987-1988. Hann lék síðast í efstu deild í febrúar 2012. Eftir það hefur hann haldið áfram að spila í neðri deildunum með Haukum-b og ef hann leikur í ár, eins og allar líkur eru á, þá fer hann í hinn afar fámenna fimm áratuga klúbb.

Aðrir

Baldur Ingi Jónasson

Baldur Ingi Jónasson – Vigurbolinn að vestan lék níu tímabil á tveimur áratugum í Úrvalsdeildinni en ferill hann er þó talsvert lengri því hann spilaði 30 tímabil í röð á Íslandsmótinu frá 1989 til 2019. Eftir að hafa slitið hásin í leik með Vestra-b í 3. deildinni í janúar 2019 gaf hann það út að skórnir væru komnir á hilluna góðu. Ef honum hins vegar snýst hugur og tekur leik í ár þá yrði það fimmti áratugurinn sem Baldur léki á Íslandsmótinu.

Birgir Mikaelsson – KR-ingurinn Birgir Mikaelsson hóf ferilinn tímabilið 1980-1981 og lék hann í efstu deild til tímabilsins 2000-2001. Hann hélt þó áfram að spila eftir það og lék meðal annars bikarleik með KR-b tímabilið 2012-2013.

Birgir Örn Birgisson – Ísfirðingurinn og fyrrum landsliðsmiðherjinn er líklegast þekktastur fyrir veru sína hjá sigursælu liði Keflavíkur á árunum 1996 til 2001. Hann hóf körfuboltaferilinn tiltölulega seint, eða um tvítugt, eftir að glæsilegum sundferli lauk. Eftir að hafa leikið og þjálfað í Þýskalandi lék hann með KFÍ í 1. deildinni og seinna Vestra-b í 3. deildinni á síðasta áratug. Ef hann leikur með Vestra-b á núverandi tímabili þá verður hann nýjasti meðlimurinn í fjögurra áratuga klúbbnum hér á landi.

Guðmundur L. Bragason – Gummi Braga lék fyrst í efstu deild með Grindavík tímabilið 1987-1988 en lokatímabil hans var 2003-2004 með sama liði. Hann var þó ekki hættur og tímabilið 2011-2012 lék hann í 1. deild, 44 ára að aldri, þar sem hann var með 16,0 stig og 13,5 fráköst að meðaltali í leik en mest tók hann 29 fráköst í einum og sama leiknum.

Teitur Örlygsson – Hinn afar sigursæli Teitur lék sinn fyrsta leik í efstu deild tímabilið 1984-1985 en hann lauk ferli sínum í efstu deild tímabilið 2002-2003. Í nóvember 2010 lék hann með Njarðvík-b í bikarleik á móti b-liði Stjörnunar en hann var einmitt þjálfari Stjörnunnar frá 2008 til 2014.

Og yfir í allt annað

Ísland

Eru þetta bestu íslensku troðslurnar frá upphafi? Mögulega klárlega.

Ísland

Íslenska landsliðið í körfubolta hefur telft fram 11 Íslendingum af erlendum uppruna í gegnum tíðina

Ísland

Njarðvíkingar voru allt annað en sáttir við flautukörfu Grindvíkinga árið 1987 og gerðu því það eina rökrétta í stöðunni og veittust að ritaraborðinu.

Ísland

Hlynur Bæringsson er mættur heim á klakann eftir 6 ár í Svíþjóð. Twitter tók að sjálfsögðu eftir því.