Þegar talað er um úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn þá tala flestir fjölmiðlar um að hún hafi fyrst verið spiluð árið 1984. Úrslitakeppnin hefur vissulega verið spiluð samfleytt síðan 1984 en hún var engu síður fyrst haldin árið 1970.
Sex lið voru í efstu deild á þeim tíma og áttu fjögur efstu liðin að mætast í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn. Fastlega var búist við að ÍR og KR myndu mætast í úrslitunum enda yfirburðarlið á þessum tíma og fór svo að þau enduðu bæði með 9 sigra í 10 leikjum. Ármenningar enduðu í þriðja sæti með 4 sigra og lengi vel leit út fyrir að Njarðvík myndi ná síðasta sætinu inn í úrslitakeppnina. Körfuknattleiksfélag Reykjavíkur, betur þekkt sem körfuknattleiksdeild Vals í dag, með Þórir Magnússon í fararbroddi var þó ekki á þeim buxunum. Þremur dögum fyrir lok deildarkeppninnar var liðið í neðsta sæti með 1 sigur en það gerði sér lítið fyrir og sigraði bæði Ármann og Þór í lokaleikjum sínum og jafnaði þar með Njarðvík að stigum. Spiluðu liðin því aukaleik um hvort liðið endaði í fjórða sæti og sigraði KFR þann leik 78-64.
Fyrirkomulag úrslitakeppninnar var með þeim hætti að í fyrstu umferð yrði einungis spilaður einn leikur og færi sigurvegarinn áfram í úrslitaseríuna en þar þyrfti að vinna tvo leiki til að verða Íslandsmeistari.
ÍR vann hlutkesti við KR um hvort liðið yrði í efsta sæti og mætti KFR í fyrstu umferð og vann sína viðureign auðveldlega.
Litið var á leik KR og Ármanns sem formsatriði fyrir KR enda sigraði það Ármann í báðum leikjum liðanna í deild. Svo fór þó ekki því Ármann sló KR óvænt út.
KR varð í 3. sæti, og kann það að koma mörgum undarlega fyrir sjónir því KR var með 18 stig eftir tvær umferðir mótsins en Ármann með aðeins 8 stig. En það má segja að hið gallaða fyrirkomulag mótisins hafi eyðilagt mótið í þetta skipti, og vafalaust er pyngja KKÍ léttari nú en undanfarin ár, því fólkið vill sjá KR og ÍR í úrslitum eins og undanfarin ár, og án alls efa eru þau lið tvö sterkustu liðin okkar í dag. En KR féll á hinu gallaða fyrirkomulagi mótsins, og verða þeir að sætta sig við 3. sætið.
Morgunblaðið, 24. mars 1970
Skemmst er frá því að segja að ÍR átti ekki í neinum vandræðum með Ármann í úrslitunum og vann báða leikina örugglega og sinn 10 Íslandsmeistaratitil. Úrslitakeppnin fékk hins vegar svo slæma dóma að það liðu 14 ár þangað til hún var haldin aftur.
