Það er ekki oft sem lögregla er kölluð á körfuboltaleik á milli íslenskra liða, hvað þá að herlögregla sé kölluð til. Það gerðist þó 31. október 1978 í leik á milli Íþróttafélags Reykjavíkur og Ungmennafélags Njarðvíkur sem fram fór í herstöðinni á Keflavíkurflugvelli.

Leikurinn var partur af óopinberu móti en auk ÍR og Njarðvíkur tóku Ungmennafélag Grindavíkur og úrvalslið af Keflavíkurflugvelli þátt.
Rétt fyrir hálfleik í leik ÍR og Njarðvíkur börðust Paul Stewart, skosk-bandarískur spilandi þjálfari ÍR, og Stefán Bjarkason, leikmaður Njarðvíkur, um frákast. Kastaðist í kekki á milli þeirra með þeim afleiðingum að flytja þurfti Stefán með sjúkrabíl á sjúkrahús hersins þar sem 6 spor voru saumuð í augabrún hans.
Bæði herlögreglan á vellinum og íslenska lögreglan voru kölluð á vettvang og var Stewart tekinn til yfirheyrslu en svo sleppt að henni lokinni. Leikurinn sjálfur var flautaður af.
Málið dróg talsverðan dilk á eftir sér. Stefán, sem var illa farin á nefi og með sokkið auga, kvaðst ætla að kæra Stewart fyrir líkamsárás auk þess sem Njarðvík kærði skotann til aganefndar.
Deilurnar voru ekki bara á milli liðanna því blaðamenn á Vísir og Tímanum lentu í ritdeilum við bæði ÍR og Njarðvík vegna frétta um atvikið auk þess sem þau gagnrýndu stjórn Körfuknattleikssambands Íslands, og þá sérstaklega formanninn, fyrir afskipti þeirra af aganefndinni vegna málsins.

Aganefnd dæmdi Stewart í 3 vikna leikbann fyrir atvikið sem þýddi að hann myndi missa af leikjum ÍR við Njarðvík og KR í Úrvalsdeildinni dagana 18. og 29. nóvember.
ÍR-ingar voru gríðarlega ósáttir við dóminn og þá sérstaklega að hann studdist einungis við lögregluskýrslur frá Stefáni og Inga Gunnarssyni, liðstjóra Njarðvíkur, á meðan skýrsla af Stewart var ekki tekin með. Í kjölfarið ákváðu ÍR-ingar að hætta öllum störfum fyrir Körfuknattleikssambandið, þar á meðal nefndarstörfum og dómgæslu.
Þann 18. nóvember mættust svo ÍR og Njarðvík fyrir framan fullt hús í Hagaskóla. Fyrirfram var búist við öruggum sigri Njarðvíkur en þegar upp var staðið varð þetta einn mest spennandi leikur tímabilsins. Það fór ekki á milli mála að engir kærleikar væru á milli liðanna og bauluðu áhorfendur á bandi ÍR-inga viðstöðulaust á Stefán í hvert sinn sem hann snerti boltann. Njarðvíkingar réðu hins vegar ekkert við bræðurna Jón og Kristinn Jörundssyni sem til samans skoruðu 51 stig í leiknum og tryggðu ÍR 95-89 sigur. Eftir leikinn var Stewart tolleraður af leikmönnum sínum en hann stýrði liðinu frá hliðarlínunni.

Leik ÍR og KR var hins vegar frestað vegna farar KR til Írlands og þegar hann var settur á aftur var 3 vikna leikbanni Stewart lokið.
Í janúar 1979 mættust liðin aftur í Úrvalsdeildinni og í þetta sinn var Stewart í búningi. Það kom þó ekki að sök fyrir Njarðvíkinga sem rúlluðu yfir ÍR, 104-78, þrátt fyrir 29 stig frá Stewart. Stefán Bjarkason fór mikinn í leiknum og skoraði 14 stig.
Í febrúar 1979 var Stewart einn af kandidötunum til að taka við þjálfum karlalandsliðsins og stýra þeim í verkefnum sumarsins. Að lokum fékk Tim Dwyer starfið og voru getgátur uppi um að Stewart hefði verið útilokaður sökum þess að leikmenn Njarðvíkur hefðu neitað að taka þátt í landsliðsverkefnum ef hann hefði verið ráðinn.
Liðin mættust svo í síðasta sinn 13. mars í undanúrslitum bikarkeppninnar. Þar sigraði ÍR í æsispennandi leik með 96 stigum á móti 95 stigum Njarðvíkinga þrátt fyrir að Stewart, sem skoraði 23 stig, hefði villað sig útaf tveimur mínútum fyrir leikslok.
Í bikarúrslitunum mætti liðið KR og var leikur liðanna leikinn undir lögregluvernd. KR liðið var þó sterkari aðilinn allan leikinn og vann að lokum öruggan 87-72 sigur þrátt fyrir 26 stig frá Stewart.
Eftir tímabilið fór Stewart til Englands þar sem hann hélt ferli sínum áfram. Hann átti þó aftur eftir að marka spor sitt í íslenska körfuboltasögu en þann 30. apríl 1982 skoraði hann 26 stig og tók 18 fráköst í sigri skoska landsliðsins á því íslenska í undankeppni Evrópumótsins.
