Connect with us

Ísland

Maðurinn sem hefur unnið (næstum) allt

Teitur vann kannski 10 Íslandsmeistaratitla en þessi vann allt hitt.

Maðurinn sem hefur unnið (næstum) allt

Jón Hrafn Baldvinsson er kannski ekki sá leikmaður sem flestir körfuboltaaðdáendur þekkja utan hörðustu KR aðdáenda og Ísfirðinga. Hann er þó líklegast sá leikmaður sem hefur komist næst því að vinna alla þá meistaraflokkstitla sem í boði eru á vegum KKÍ.

Jón hóf ferilinn með KR í kringum 2004 en vann sinn fyrsta meistaraflokkstitil með Laugdælum árið 2010 er liðið sigraði 2. deildina. Þjálfari liðsins var Pétur Már Sigurðsson og þegar hann var ráðinn þjálfari KFÍ árið 2011 þá var það eitt af hans fyrstu verkum að fá Jón Hrafn með sér vestur. Það samstarf virkaði ágætlega því KFÍ vann 1. deildina þá um vorið og fór upp í úrvalsdeild.

KFÍ féll úr úrvalsdeild vorið 2014 og skipti Jón þá yfir til uppeldisfélagsins, KR. Sú skipti gáfu vel því félagið varð Fyrirtækjameistari þá strax í september. Ekki seinna vænna því sú keppni var lögð niður árið eftir. Nokkrum dögum seinna varð hann meistari meistaranna með KR en sá leikur dró dilk á eftir sér því Jón var fluttur á brott í sjúkrabíl eftir samstuð við Ólaf Ólafsson og lék ekki meira það árið.

Jón var mættur aftur í KR búninginn tímabilið á eftir og þá vann liðið þrennu eða Íslands-, deildar- og bikarmeistaratitlana. Hann bætti svo við tveimur B-liðs titlum með KR-b 2016 og 2017.

Hann á þó eitt eftir til að fullkomna medalíusafnið en það er að sigra 3. deild karla sem fyrst var spiluð veturinn 2015-2016. Hvort það takist á eftir að koma í ljós en líklegast hefur engin komist jafn nálægt því og Jón.

Íslandsmeistari
2016 (KR)

Bikarmeistari
2016 (KR)

Deildarmeistari
2016 (KR)

Fyrirtækjabikarinn
2014 (KR)

Meistari meistarana
2014 (KR)

1. deild
2012 (KFÍ)

2. deild
2010 (Laugdælir)

B-lið
2006, 2016, 2017 (KR-b)

More in Ísland