Connect with us

Ísland

Þegar DV drullaði yfir íslenskan körfubolta

Versta rasskelling sem íslenskur körfubolti hefur fengið á síðum blaðanna?

Dagblaðið Vísir var á sínum tíma eitt stærsta dagblaðið á Íslandi og var á tímabili með gríðarlega góða umfjöllun um íslenskan körfubolta.

Í janúar 2001 birtist í blaðinu húmorskur dálkur er kallaðist „Í fókus / Úr fókus„. Fótboltinn og handboltinn voru í fókus samkvæmt penna blaðsins á meðan hann reif nýtt rassgat á körfuboltann.

„Íslenskur körfubolti er eitt það leiðinlegasta fyrirbrigði sem fyrirfinnst um þessar mundir. Það virðist sama hvað reynt er, íslenskir körfuboltamenn geta hreinlega ekki neitt og koma þeir algjörlega í veg fyrir að fólk fái snefil af áhuga á íþróttinni.

Hér í eina tíð varð einhvers konar vakning með NBA-æðinu sem reið yfir landið og allir krakkar kepptust við að kaupa sér Jordan-skó og aðrar „nauðsynjar“ en sá áhugi hefur minnkað með hverju árinu og hverjum tapleik landsliðsins á alþjóðavettvangi.

Á tímabili gekk áhuginn meira að segja svo langt að íslenskir körfuboltaleikmenn voru farnir að raka á sér skallann til að reyna að líkjast Shaquille O’Neal eða einhverjum í þeim dúr en það sér hver heilvita maður að það er til lítils þegar mennirnir geta vart komið sendingu frá sér.

Það er heldur ekki svo að við séum að sjá einhverjar troðslur eða skemmtilegt samspil í þessum leikjum en samt er okkur boðið upp á „Stjörnuleik“ á hverju ári. Að vísu eru það erlendu leikmennirnir sem bera hann uppi eins og annað sem tengist körfubolta hér á landi þannig að allir ættu að sjá hversu tilgangslaust það fyrirbæri er.

Væri ekki gáfulegra að íslendingar létu af þessum ósið sem körfubolti er meðan þeir geta ekkert í honum og færu að snúa sér að einhverju öðru?“
Dagblaðið Vísir, 26. janúar 2001

Flestir sem voru komnir til manns á þessum tíma vita þó að hér eru gríðarlegar fleipur í gangi: Menn rökuðu sig sköllótta til að líkjast Michael Jordan, ekki Shaq.

More in Ísland

Fúsíjama TV er frjálst og óháð körfuboltablogg sem þorir meðan aðrir þegja. Copyright © Fúsíjama TV 2013-2023