Connect with us

Ísland

Hver var fyrsti erlendi leikmaðurinn á Íslandi?

Það var líf og fjör í deildinni með Curtis Carter og Jimmy Rogers.

Hver var fyrsti erlendi leikmaðurinn á Íslandi?

Saga erlendra leikmanna í körfuknattleik á Íslandi spannar nærri 50 ár. Nú þegar erlendir leikmenn flæða inn í íslensku deildirnar aftur, þökk sé Evrópusambandinu og Mirko Stéfan Virijevic1, að þá er ekki úr vegi að spyrja hver var fyrstur.

Curtis „Trukkurinn“ Carter og Jimmy Rogers, sem sjást hér að ofan í einni frægustu íþróttamynd síðustu aldar, voru líklegast fyrstu erlendu atvinnumennirnir hér á landi þegar þeir léku með KR og Ármann tímabilið 1975-1976. En þótt þeir væru fyrstu erlendu leikmennirnir sem sérstaklega voru fengnir hingað til að spila körfubolta að þá voru þeir ekki fyrstu erlendu leikmennirnir til að spila á Íslandsmótinu.

Í grein á vefsíðu Körfuboltasambandsins er fyrsti erlendi leikmaðurinn sem getið er um nefndur David Duvaney. Leikmaðurinn, sem hét fullu nafni David Allen Devaney, var þó hálf-íslenskur, fæddur í Reykjavík árið 1955 og uppalinn hér á landi.2 David lék fyrst með meistaraflokki Njarðvíkur tímabilið 1972-1973, einungis 17 ára að aldri, og hefði líklegast unnið stigatitilinn það árið ef meiðsli hefðu ekki valdið því að hann missti úr nokkra leiki. Í þá daga var stigatitillinn veittur þeim sem skoraði flest stig í heildina og þar var Þórir Magnússon efstur með 306 stig. David skoraði þó flest stig að meðaltali, 31,1 stig, ásamt því að leiða deildina í vítanýtingu. Eftir tímabilið fluttist hann til Bandaríkjanna til að stunda nám en lék þó tvívegis aftur með Njarðvík þegar hann var staddur hér á landi í fríi, síðast í janúar 1974 þegar hann skoraði 30 stig í sigri á móti ÍS í efstu deild karla, áður en hann hvarf alveg úr íslensku körfuboltasögunni.

En þremur árum áður en hinn hálf-íslenski David Devaney lék sinn fyrsta leik á Íslandsmótinu, að þá birtust tveir erlendir leikmenn á íslenska körfuboltasviðinu, þeir David Janis og Barry Nettles.

Janis var frá Indónesíu og lék með unglingalandsliðum þeirra á sínum yngri árum. Hann fluttist hingað ásamt íslenskri konu sinni árið 1970 frá Bandaríkjunum, þar sem þau höfðu verið við nám, og hóf að leika körfuknattleik með KR undir lok tímabilsins. Lengst af var hann með KR en einnig lék hann með ÍS og Fram hér á landi. Árið 1973 fékk hann íslenskan ríkisborgararétt og íslenskaði fornafn sitt í Davíð.

Barry Nettles hóf leik á undan Janis, eða strax frá byrjun tímabilsins. Hann kom hingað til lands sem skiptinemi á vegum nemendaskipta Þjóðkirkjunnar og hóf fljótlega að æfa með Njarðvík. Hann var fimmti stigahæsti leikmaður deildarinnar með 165 stig í 10 leikjum en auk þess skoraði hann 26 stig á móti Körfuknattleiksfélagi Reykjavíkur3 í umspilsleik um sæti í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn4. Hann gekk aftur til liðs við Njarðvík fyrir 1972-1973 tímabilið og spilaði fyrsta leik liðsins á tímabilinu í desember 1972. Nettles hélt fljótlega eftir það til Bandaríkjanna í jólafrí en kom ekki aftur til landsins eftir áramót eins og búist hafði verið við.5

Hvort einhverjir hafi komið á undan bandaríska skiptinemanum Barry Nettles er erfitt að fullyrða um, til þess eru heimildirnar um fyrstu áratugi Íslandsmótsins of glopóttar. Það eru þó ágætis líkur á að hann hafi verið trendsetterinn í því að mæta ekki til baka úr jólafríinu.


1 Á tveimur mánuðum er Mirko er búinn að velta Sigurði Hjörleifssyni úr sæti sem umboðsmaður Íslands #1
2 Devaney var sonur íslenskrar konu og bandarísks starfsmann Lockheed
3 Betur þekkt í dag sem körfuknattleiksdeild Vals
4 Úrslitakeppnin 1973 fékk vægast sagt slæma dóma frá fjölmiðlum eftir að KR datt út í undanúrslitunum og var sett á ís til ársins 1984
5 Í stað Nettles þá fékk Njarðvík til liðs við sig David nokkurn Devaney

More in Ísland