Það hefur ekki farið fram hjá neinum að KR vann það frækilega afrek að sigra sinn fimmta Íslandsmeistaratitil í röð í gær undir stjórn Finns Stefánssonar. Fjölmiðlar hafa að sjálfsögðu fjallað mikið um þetta afrek en er allt satt og rétt sem þar kemur fram?
KR er sigursælasta lið allra tíma
Á réttri leið – KR er ásamt Njarðvík sigursælasta liðið í efstu deild karla í Íslandsmeistaratitlum talið. Eins og við höfum áður fjallað um að þá hóf körfuknattleiksdeild Njarðvíkur sögu sína sem ÍKF (Íþróttafélag Keflavíkurflugvallar) árið 1952 og vann fjóra Íslandsmeistaratitla undir því nafni. Árið 1969 gekk félagið inn í Ungmennafélag Njarðvíkur og varð að körfuknattleiksdeild þess og eftir það hefur félagið bætt við 13 Íslandsmeistaratitlum og hefur því unnið 17 alls, líkt og KR.
KR er fyrsta liðið til að verða Íslandsmeistari fimm ár í röð
Hálfsannleikur – KR er fyrsta félagið til að verða Íslandsmeistari fimm ár í röð í efstu deild karla eftir að úrslitakeppnin var tekin upp tímabilið 1983-1984. Fram að því hafði efsta liðið í deildinni orðið Íslandsmeistari en oft þurfti sérstakan aukaleik ef tvö lið voru jöfn að stigum í lok tímabilsins. ÍR vann það afrek að verða Íslandsmeistari tvívegis fimm sinnum í röð. Fyrst frá 1960 til 1964 og seinna frá 1969 til 1973. Þess má geta að kvennalið KR er eina kvennaliðið sem náð hefur því afreki að verða Íslandsmeistari 5 sinnum í röð, en það gerðu þær frá 1979 til 1983.
Finnur Freyr Stefánsson er sigursælasti þjálfarinn í sögu efstu deildar
Fleipur – Finnur sem allt vinnur hefur, ásamt Sigurði Ingimundarsyni, unnið flesta Íslandsmeistaratitla karla síðan úrslitakeppnin var tekin upp eða fimm talsins. Tveir aðrir þjálfarar virðast þó hafa fallið í gleymskunar dá hjá fjölmiðlamönnum, þeir Helgi Jóhannsson og Einar Ólafsson, fyrrum þjálfarar ÍR. Helgi vann að minnsta kosti fimm Íslandsmeistaratitla sem þjálfari frá 1960 til 1964. ÍR vann einnig titilinn árin 1954, 1955 og 1957 en heimildir geta ekki hver var þjálfarinn á þeim árum. Einar Ólafsson vann að minnsta kosti sex Íslandsmeistaratitla, fimm í röð árin 1969 til 1973 og svo aftur 1975. Á síðu KKÍ er Þorsteinn Hallgrímsson titlaður þjálfari meistaraliðs ÍR 1977 en í bókinni Leikni framar líkamsburðum er Einar titlaður þjálfari. KKÍ titlar Einar einnig sem meðþjálfara sigurliðsins 1963 en hugsanlegt er að hann hafi verið aðstoðarþjálfari. Miðað við þær heimildir sem eru fyrir hendi að þá er Einar sigursælasti þjálfarinn í efstu deild með sex Íslandsmeistaratitla en mögulega fleiri. Helgi er að minnsta kosti jafn þeim Finn og Sigurði en mögulegt er að hann hafi einnig verið við stjórnvölin í fyrstu þremur Íslandsmeistaratitlum ÍR og gæti þá hafa unnið allt að átta Íslandsmeistaratitla.
Það skal þó engum dyljast hversu gríðarlega mikið afrek það var hjá KR og Finn að sigra Íslandsmeistaratitilinn fimm ár í röð og ekki loku fyrir skotið að stutt sé í næsta titil þrátt fyrir ellimerki lykilmanna enda nóg af hæfileikaríkum KR-ingum að spila út í hinum stóra heimi sem gætu ratað heim aftur.
