Connect with us

Ísland

KáJoð skaut Álftanesi í úrslitin

Kjartan Atli Kjartansson kláraði Stál-Úlf á lokasekúndunum.

Mynd: Stál Úlfur

Stál-Úlfur og Álftanes mættust í undanúrslitum 3. deildar karla í Fagralundi í gær. Stál-Úlfur hafði farið ósigrað í gegnum deildina og sigrað alla 12 leikina sína, og alla nema einn með 20 stiga mun eða meira. Naumasti sigur þeirra í deildinni var einmitt 86-81 sigur á Álftanesi í janúar en Álftnesingar enduðu í fjórða sæti deildarinnar, jafnt Vestra-b og Fjarðarbyggð að stigum en með lakari árangur í innbyrðis viðureignum.

Leikur liðanna í dag var einnig í hnífjafn en í lokin steig hinn kunni körfuknattleiksmaður Kjartan Atli Kjartansson upp og skaut gestunum í úrslitin en hann setti niður þrist og tvö víti á síðustu 15 sekúndunum og tryggði Álftanesi 69-72 sigur og farseðil í úrslitin.

Þess má geta að Kjartan hafði verið ískaldur frá þriggja stiga línunni í leiknum og hafði einungis sett niður 3 af 19 þriggja stiga skotum sínum fyrir lokaskotið en, líkt og Shaq á vítalínunni, þá setti hann það niður þegar það skipti máli.

Kjartan Atli var stigahæstur hjá Álftanesi með 30 stig en hjá Stál-Úlf var Zilvinas Buksnys stigahæstur með 16 stig.

Í úrslitunum mætir Álftanes annað hvort Vestra-b eða Fjarðarbyggð.

Tölfræði leiksins

More in Ísland