Brynjar Þór Björnsson hefur spilað með meistaraflokki síðan 2004 og hefur sjö sinnum orðið Íslandsmeistari. Á þessum fjórtán árum hefur hann einnig fengið á sig það orðspor að vera grófur leikmaður.
Í körfubolta Brynjar vann,
barði mann og annan,
meiddi stundum mótherjann
mætti ekki bann’ann?#dominos365 #ljóðafimmtudagur— Örn Guðjónsson (@__gorn) April 26, 2018
Er orðsporið verðskuldað? Mögulega. En er hann grófasti leikmaður Íslandssögunar? Varla.
Hér má sjá þau sex tilvik sem ratað hafa í fréttirnar og hafa hjálpað til við þetta orðspor.
Í febrúar 2005 fékk Brynjar 1 leikja bann fyrir brot sitt á Sverri Þór Sverrissyni undir lok leiks Keflavíkur og KR þegar KR-ingar freistuðu þess að senda Keflvíkinga á vítalínuna í miklum hitaleik.
Í janúar 2017 hljóp Brynjar niður Björgvin Hafþór Ríkharðsson, leikmann Tindastóls. Dómarar leiksins virtust ekki hafa séð atvikið og dómaranefnd ákvað eftir að hafa horft á upptöku af brotinu að kæra málið ekki til aganefndar þar sem skoðun þeirra var, eftir að hafa leitað álits óháðra sérfræðinga hérlendis og erlendis, að ekki hafi verið um brottrekstrarvillu að ræða. Þess má geta að formaður dómaranefndar er fyrrum stjórnarmaður Tindastóls.
Í apríl 2017 fékk Dagur Kár Jónsson að því er virðist óviljandi olnbogaskot frá Brynjari er hann keyrði upp að körfunni í oddaleik Grindavíkur og KR um Íslandsmeistaratitilinn í lokaúrslitum Domino’s-deildar karla.
Í október 2017 fékk Brynjar 1 leikja bann fyrir háttsemi sína í leik Stjörnunar og KR 13. október en talsverður hiti var í mönnum og fékk Jón Arnór Stefánsson einnig 1 leikja bann fyrir háttsemi sína í leiknum.
Í apríl 2018 sló Brynjar Haukamanninn Emil Barja í andlitið er þeir börðust um frákast. Brynjar sagði að um óviljaverk hefði verið að ræða en því voru Haukar ósammála og sendu þeir inn beiðni til KKÍ um að aganefnd skoðaði atvikið. Eftir að hafa skoðað málið ákvað aganefndin að vísa málinu frá samkvæmt Vísir.is.
Í apríl 2018 staðsetti Brynjar sig fyrir framan Pétur Rúnar Birgisson, er sá síðarnefndi hljóp upp völlinn og var með athyglina á sendingu sinni til Sigtryggs Arnars Björnssonar, með þeim afleiðingum að Pétur hleypur á Brynjar og fær á sig högg. Pétur var ekki sáttur í leikslok í viðtali við RÚV og sakaði Brynjar um grófan leik.
Brynjar hefur líka reynslu í að vera á hinum endanum á svona atvikum því Magnús Þór Gunnarsson fór tvívegis í bann árið 2014, samtals 3 leiki, fyrir brot sín á Brynjari en í fyrra skiptið gaf hann honum vænt olnbogaskot í andlitið og í seinna skiptið straujaði hann Brynjar niður í hraðaupphlaupi.
Mikið hefur verið talað um að bróðir Brynjars sé varaformaður aganefndar og haldi hlífiskildi yfir honum, þrátt fyrir að hann komi ekki að neinum málum tengdum Brynjari sökum skyldleika líkt og reglur aganefndar kveða á um ásamt því að í tveimur af þeim þremur málum sem virðast hafa ratað inn á borð aganefndar að þá hefur Brynjar verið dæmdur í leikbann.
Sjálfur hefur Brynjar látið hafa það eftir sér að hann hafi ekki miklar áhyggjur af þessari umræðu um sig.
„Ef þetta myndi særa mig, þessi umfjöllun sem tengist mér og mínu nafni, þá væri ég hættur í körfubolta.”
