Connect with us

Hi, what are you looking for?

Ísland

Staðreyndavaktin: Fór Andrée með fleipur?

Andrée Michelsson komst í fréttirnar í dag en líklegast ekki á þann hátt sem hann óskaði.

Viðtal við hinn sænsk-íslenska Andrée Michelsson, leikmann Hattar, í Lokaltidningen vakti athygli í dag en ýmsum þótti hann fara frjálslega með staðreyndir í því. Andrée sagði þó í viðtali við Vísir að blaðamaður Lokaltidningen hefði ekki haft rétt eftir sér, og ruglað saman einhverjum svörum hans.

En hverjar voru hinar meintu rangfærslur?

Í viðtalinu segist Andrée spila með leikmönnum sem hafa spilað í bestu liðum heims, eins og í NBA-deildinni.
Þótt enginn af samherjum hans hafi spilað meðal hinna bestu, nema hugsanlega Mirkó því hann hefur bókstaflega spilað alls staðar, þá eru vissulega tveir leikmenn í deildinni sem hafa verið á mála hjá NBA liðum, þeir Stanley Robinson hjá Keflavík og Jón Arnór Stefánsson hjá KR. Andrée mætti Stanley í deildinni fyrr í vetur en á þó enn eftir að mæta Jón Arnóri á parketinu, eins og margir aðrir, enda er sá gamli alltaf meiddur. Ekki má svo gleyma Tryggva Hlinasyni sem nú spilar í Liga ACB og EuroLeague.

Niðurstaða: Sleppur. Alltaf gott að tala upp deildina sem maður spilar í þannig að fólkið heima haldi ekki að þetta sé einhver bumbuboltadeild. Hann er heldur ekki beint að ljúga þótt hann skauti framhjá þeirri staðreynd að þeir hafi ekki endilega spilað í NBA deildinni sjálfri, heldur bara sumardeildinni og undirbúningstímabilinu.

Hann talar um að liðið hafi fallið úr leik 8-liða úrslitum gegn liðinu sem hefur unnið fjögur ár í röð áður en hann kom heim í jólafríið.
Andrée segir sjálfur í viðtali við Vísir að blaðakonan hafi ruglað bikarleik gegn Breiðabliki saman við deildarleik gegn KR og það hafi því komið rangt út. Það er í sjálfu sér ekki ósennilegt, Höttur spilaði við KR í deildinni 7. desember og Breiðablik í bikarnum 11. desember

Niðurstaða: Sleppur, sérstaklega ef blaðamanninum leiðist körfubolta og dottaði þarna á milli. Það væri æðisleg skýring.

Í viðtalinu segst hann hafa verið með 20 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar á móti KR.
Samkvæmt tölfræði leiksins skoraði hann 20 stig, tók 5 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Það er þekkt staðreynd að það er til lygi, haugalygi og íslensk körfuboltatölfræði þannig að þið fyrirgefð að við tökum ekki mikið mark á henni. Kannski horfði hann á upptökuna og taldi þetta sjálfur.

Niðurstaða: Sleppur þangað til einhver nennir að horfa á upptökuna og getur sannað annað. Við nennum því að minnsta kosti ekki.

Í viðtalinu segist hann hafa verið stigahæstur í leiknum á móti KR
Eins og fyrr segir skoraði Andrée 20 stig í leiknum, sem er jafn mikið og stigahæsti leikmaður KR í leiknum, Björn Kristjánsson, skoraði. Kelvin Lewis var hins vegar stigahæstur með 34 stig.

Niðurstaða: Fleipur. Nema að hann hafi bara verið að tala um sænska leikmenn því hann var klárlega stigahæstur af þeim í leiknum.

Andrée segist vera með 14 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar að meðaltali í leik í vetur
Samkvæmt tölfræði KKÍ er Andrée með 9,5 stig, 1,3 fráköst og 1,6 stoðsendingar að meðatali í leik sem þýðir að þetta væri ansi rausnarleg námundun hjá honum. Sjálfur segir hann við Vísir að hann hafi verið að svara spurningu um besta tímabilið sitt, ekki núverandi. Við vitum ekki með ykkur en ef við ætluðum að ljúga til um tölfræðina okkar þá myndum við allaveganna segjast hafa verið með 27/8/6.

Niðurstaða: Óvíst þar eð við höfum ekki aðgang að tölfræði hans í sænsku deildunum.

Botnlínan
Var þetta viðtal dæmi um leikmann sem talaði upp eigin getu með staðhæfingum sem auðvelt væri að hrekja eða var hér um að ræða blaðamann með litla þekkingu á körfubolta sem ruglaði saman hinum ýmsu svörum Andrée? Þótt hann hafi kannski mögulega talað eitthvað upp eigið ágæti þá höllumst við frekar að hinu síðara, það er þekkingarleysi blaðamannsins. Semsagt, skemmtileg frétt sem hleypti smá lífi í dauða tímanum í körfunni en engu síður uppblásið mál.

Og yfir í allt annað

Ísland

Höttur féll á dögunum úr Domino’s deild karla og hafa verið höfð orð um að þar sé á ferðinni besta liðið sem fallið hefur...

Ísland

Fjölmiðlar hafa fjallað mikið um afrek KR en er allt satt og rétt sem þar kemur fram?

Ísland

Verða KR bestir aftur eða ná Stólarnir loksins að kaupa sig á toppinn?

Ísland

Valur fer inn í tímabilið sem sterkasta liðið á pappírnum. Standa þeir undir því?