Connect with us

NBA

Þegar Michael Jordan tapaði í 1-á-1 fyrir 45 ára gömlum forstjóra

Kóngurinn sem lagði kappa eins og Barkley, Malone og Drexler gat ekki unnið hálf fimmtuga forstjórann John Rogers.

Þegar Michael Jordan tapaði í 1-á-1 fyrir 45 ára gömlum forstjóra

Hér á árum áður hélt Michael Jordan körfuboltabúðir fyrir ríka forstjóra og bisnissmenn. Reglulega spilaði hann 1-á-1 upp í 3 við þá og óþarfi er að taka fram að þeir áttu aldrei roð í Geitina.

Í einum slíkum búðum árið 2003 var hann búinn að vera að rúlla yfir áskorendurnar og nú var komið að John nokkrum Rogers. Þegar hann réttir Rogers boltann í byrjun leiksins þá galar hann yfir hópinn:

„Don’t be mad at me, I’m just too good. What, you think I had this camp just so you all could beat me?“

Hann er varla búinn að sleppa orðinu þegar Rogers brunar framhjá honum og leggur boltann ofan í körfuna.

Næsta sókn, sama niðurstaða. 2-0 fyrir bisnissmanninn frá Wall Street.

Rogers klikkar naumlega í næstu sókn og Jordan fær boltann. Næstu sekúndur koma nákvæmlega engum á óvart því Jordan setur niður tvö stökkskot og rífur hóflega mikinn kjaft.

2-2

En svo klikkar hann á skoti. Og, eftir að Rogers misnotar sókn, þá klikkar Jordan aftur. Tvö skot farin forgörðum í röð.

Rogers fær boltann. Hann heldur sig við það sem er búið að ganga vel og keyrir beint til vinstri á Jordan sem reynir að spila vörn í fyrsta skiptið í leiknum. Jordan stekkur upp til að hamra skot Rogers út úr húsinu en sá gamli veit alveg hvað hann er að gera og skrúfar boltann framhjá útréttri hendinni á kónginum.

„Oh, no!“

3-2. Leikur.

Eftir leikinn reynir Jordan að afsaka sig en kemst varla að fyrir Damon Wayans sem hraunar yfir hann.

„At your own camp??“

Af Rogers er það að frétta að hann setti upptökuna af leiknum á haug af DVD diskum sem hann dreifir reglulega til vina, vinnufélaga, vandamanna og ábyggilega ókunnugs fólks sem hann mætir út á götu. Sem við myndum klárlega líka gera ef við hefðum unnið Jordan í einhverju.

More in NBA