Connect with us

Ísland

Er KR sigursælasta karlaliðið?

Er KR orðið sigursælasta karlaliðið í körfunni eftir 16 Íslandsmeistaratitil sinn? Þetta er ekki alveg svo einfalt.

Íslandsmeistarar KR 2017 – Mynd: Karfan.is

KR vann sinn 16 Íslandsmeistaratitil í meistaraflokki karla á dögunum og tók því framúr ÍR sem hefur unnið 15 sinnum. Margir hafa fagnað því að KR sé þar með orðið sigursælasta félagið í meistaraflokki karla, í Íslandsmeistaratitlum talið. En er það svo?

Fyrstu Íslandsmeistararnir. Neðri röð: Guðmundur Pétursson, Hjálmar Guðmundsson, Ingi Gunnarsson, Friðrik Bjarnason, Helgi Jakobsson. Aftari röð frá vinstri: Gene Croley, þjálfari, Rósmundur Guðmundsson, Kristján Júlíusson, Bogi Þorsteinsson, form. íþróttafélagsins, Runólfur Sölvason, Jóhann Guðmundsson og Jom Wahl, þjálfari.

Fæstir kannast við nafn ÍKF (Íþróttafélag Keflavíkurflugvallar) en það var eitt af upphafsliðunum á Íslandsmótinu í körfubolta ásamt Ármanni, Gosa, ÍR og ÍS. Það varð einnig fyrsti Íslandsmeistarinn en félagið sigraði fyrstu tvö Íslandsmótin árin 1952 og 1953. Félagið bætti svo við tveimur Íslandsmeistaratitlum í viðbót, árin 1956 og 1958, áður en halla fór undan fæti en næstu árin á eftir flakkaði liðið á milli efstu og næst efstu deildar.

Árið 1969 sigraði ÍKF næst efstu deild og tryggði sér sæti í þeirri efstu. Liðið hafði, eins og mörg önnur smærri lið, átt í vandræðum með æfingaraðstöðu og hafði því verið í sambandi við Ungmennafélag Njarðvíkur með þá hugmynd um að sameinast félaginu og verða að körfuknattleiksdeild þeirra. Úr því varð og í byrjun næsta tímabils hófu þeir leik í efstu deild undir merkjum UMFN.

Söguna undir nafni UMFN þekkja flestir en félagið bætti við 13 Íslandsmeistaratitlum eftir sameininguna og hefur því unnið 17 titla alls, einum fleiri en KR.

Þetta er ekki eina dæmið um að lið breyti um nafn eða gangi inn í annað og stærra íþróttafélag. Lið Gosa, sem minnst er á hér að ofan, breytti nafni sínu í Körfuknattleiksfélag Reykjavíkur (KFR) árið 1958 og árið 1970 sameinaðist það Val og varð að körfuknattleiksdeild þeirra. Nýlegasta dæmið um svona breytingu er lið KFÍ frá Ísafirði en árið 2016 gekk það inn í íþróttafélagið Vestra og tók upp nafn þeirra.

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, var þó alveg með sína skoðun á málinu á hreinu.

KR, sem upphaflega hét Fótboltafélag Reykjavíkur (þó löngu fyrir tíma körfuknattleiksdeilarinnar), hefur vissulega unnið flesta Íslandsmeistaratitla í meistaraflokki karla undir einu nafni en í ljósi sögu ÍKF/UMFN mun alltaf fylgja stór stjarna * þeirri staðhæfingu að þeir séu sigursælastir frá upphafi.

Allaveganna næstu tvö árin.

More in Ísland