Connect with us

Mynd: Karfan.is

Úrslitakeppnin hefst 15. mars næstkomandi með leik KR og Þórs. Það er því ekki úr vegi að kasta fram spá fyrir átta liða úrslitin.

KR (1) – Þór Ak. (8)

Innbyrðis: 1-1
Þrátt fyrir að stærsti skellur KR í vetur hafi komið á móti Þór á Akureyri í febrúar og að það sé ekki óþekkt að liðið í áttunda sæti slái út liðið í því fyrsta, eins og Benedikt Guðmundsson þekkir vel, þá hefur KR svolítið sem Þórsararnir hafa ekki: Jón Arnór Stefánsson.

KR í 4 leikjum

Stjarnan (2) – ÍR (7)

Innbyrðis: 1-1
Stjarnan endaði í öðru sæti en engu síður hefur verið hikst í leik þeirra eftir að Justin Shouse meiddist á höfði og er algjörlega óvíst hvenær og hvort hann spili aftur. ÍR-ingar hafa hins vegar verið á góðri siglingu en þeir unnu 7 af 11 leikjum sínum á nýja árinu. Þeir eru einnig vel studdir af einu besta stuðningsmannaliði landsins, Ghetto Hooligans, sem ætti að keyra upp stemninguna hjá þeim.

ÍR í 5 leikjum

Tindastóll (3) – Keflavík (6)

Innbyrðis: 1-1
Stólarnir voru í sérflokki í vetur með KR og Stjörnunni en sýndu þó mikið veikleikamerki eftir áramót þegar kom að því að klára leiki. Trekk í trekk töpuðu þeir niður stórri forustu í fjórða leikhluta og glopruðu frá sér unnum leik. Keflvíkingar hafa hins vegar verið að spila mikið betur að undanförnu eftir að Friðrik Ingi Rúnarsson tók við stjórnartaumunum ásamt því að hafa besta leikmann deildarinnar í Amin Stevens.

Keflavík í 4 leikjum

Grindavík (4) – Þór Þ. (5)

Innbyrðis: 1-1
Grindavík endaði í fjórða sæti í deildinni þvert á allar spár frá upphafi tímabilsins. Það hjálpaði talsvert að fá Dag Kár Jónsson en Grindvíkingar voru þrátt fyrir það ekki beint skólabókardæmi í stöðuleika eins og ansi mörg litrík viðtöl við þjálfara liðsins vitna til um. Þórsarar byrjuðu tímabilið með látum, þeir skelltu KR í meistarakeppni karla og unnu 4 af 5 fyrstu leikjum sínum í deildinni. Eftir það datt botninn úr leik þeirra og töpuðu þeir 9 af næstu 13 leikjum áður en þeir kláruðu tímabilið á 2 leikja sigurgöngu.

Grindavík í 5 leikjum

More in Ísland