Mynd: Karfan.is
Nú þegar tímabilið er hálfnað þá hafa þegar þrír þjálfarar í efri deildunum verið látnir taka pokann sinn.
1. Björn Steinar Brynjólfsson – Grindavík (2-5)
2. José María Costa Gómez – Tindastóll (4-2)
3. Andri Þór Kristinsson – Hamar (5-8)
En hverjir koma næstir?
Í heita sætinu
1. Ingi Þór Steinþórsson – Snæfell (0-11)
Fyrr frýs í helvíti en að Ingi Þór verði rekinn.
1. Daníel Guðmundsson – Njarðvík (4-7)
Tímabilið er hálfnað og Njarðvíkingar eru í fallsæti. Kannski ekki hægt að kenna þjálfaranum eingöngu um það enda er þetta einstaklega illa samsett lið með sirka 11 bakverði í hópnum. Þeir sömdu þó nýlega við hinn 203 cm háa Myron Dempsey, sem lék síðast með Tindastól, til að bjarga tímabilinu. En ef sigrarnir byrja ekki að hrannast upp á nýja árinu þá á þjálfarinn eftir að verða næstur út um dyrnar á eftir Stefan Bonneau og formanninum Gunnar Örlygssyni.
2. Borce Ilievski – ÍR (4-7)
Margir spáðu ÍR góðu gengi í ár (ekki við samt!) en það hefur ekki gengið eftir. Meiðsli hafa spilað þar stóran hluta, Stefán Karel Torfason þurfti að leggja skóna á hilluna auk þess sem Matthías Orri Sigurðarson og Kristinn Marinósson hafa misst úr nokkra leiki. Það er oft sagt að það sé auðveldara að skipta um þjálfarann en alla 12 leikmennina en það er spurning hvað nýr maður næði úr hópnum sem Borce, Bjarna Magnússyni, Örvari Þór Kristjánssyni, Herbert Arnarsyni og Jóni Arnari Ingvarssyni tókst ekki að ná úr honum á undanförnum tímabilum.
3. Ágúst Björgvinsson – Valur (8-3)
Við skulum viðurkenna það, sætið hans er í versta falli pissvolgt. Undir hans stjórn er Valur með 72% vinningshlutfall í 1. deildinni, eina liðið sem hefur unnið Hött og eru komnir í 8. liða úrslitin í bikarnum eftir að hafa slegið út tvo úrvalsdeildarlið. Það sagt þá eru þeir á pappírnum lang sterkasta liðið í 1. deildinni (hafa framherjalínu sem Njarðvík blotnar í buxunum yfir) en hafa samt tapað þremur leikjum, þar á meðal á móti liði FSu sem, með fullri virðingu fyrir Selfyssingum, er nokkrum klössum fyrir neðan Valsara. Á pappírnum. Það er ólíklegt að Ágúst verði látinn taka poka sinn en stjórnir hafa þó panikað yfir minni hlutum.
