Connect with us

Hi, what are you looking for?

Ísland

Skrípaleikurinn 1971

Þegar KR og Njarðvík tefldu bæði fram ólöglegum leikmönnum og þjálfari þeirra síðarnefndu spilaði á sparibuxunum.

Þann 14. mars árið 1971 mættust KR og Njarðvík í 1. deild karla, forvera úrvalsdeildarinnar, á heimavelli þeirra síðarnefndu. Fyrir leikinn var ljóst að úrslit hans hefðu litla þýðingu fyrir bæði lið. Njarðvík var þegar fallið á meðan KR, sem var í öðru sæti, átti ekki möguleika á að komast ofar því ÍR var þegar búið að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

Leikurinn átti þó aldeilis eftir að fara í sögubækurnar

Um þverbak keyrði í Njarðvíkum á sunnudaginn í leik KR og UMFN. Þar sýndu forráðamenn beggja liða og leikmenn slíka
óvirðingu við mótið, að einsdæmi er, og er áreiðanlega enga samlíkingu að finna í 1. deildarkeppni í íþróttum hér á landi.

Þessi leikur hafði enga þýðingu fyrir UMFN, sem er í neðsta sæti í deildinni og vantaði menn í þetta sinn til að fylla upp í liðið. Fengu þeir einn af leikmönnum HSK, sem leikið hefur með HSK í 1. deild í vetur, Sigurð Val, til að leika með þeim, og KR-ingar fengu sinn gamla félaga Gunnar Gunnarsson, sem leikur með Skallagrím í 2. deild, til að leika með þeim, en hann var samferða þeim suður til að horfa á leikinn.

Léku þessir menn, sem báðir eru ólöglegir í liðunum, allan tímann, og undir lok leiksins bættist einn við í hópinn, Guðmundur Þorsteinsson, þjálfari UMFN, sem lék með UMFN í sparibuxunum síðustu mínúturnar. En þá voru aðeins 4 leikmenn eftir inn á af leikmönnum UMFN. Hafði einum þeirra, sem kominn var með 5 villur vísað út úr húsinu fyrir að slá til annars dómarans, og kom Guðmundur í hans stað, og skoraði eina körfu við mikinn fögnuð sinni manna jafnt sem mótiherja.
Tíminn – 16. mars 1971

Eftirmálarnir urðu talsverðir. Leikmenn og blaðamenn köstuðu ásökunum fram og til baka, og liðið í þriðja sæti, Ármann, sá sér leik á borði í að eiga möguleika á silfrinu með því að kæra KR-inga fyrir að nota ólöglegan leikmann.

Að lokum fór svo að úrslit leiksins voru ógild og liðin skikkuð til að spila hann aftur og í þetta skiptið með einungis löglegum leikmönnum. „Skrípa“leikurinn hafði verið óvænt jafn og spennandi en KR-ingar tóku af öll tvímæli í þeim seinni um hvort væri betra liðið og rúlluðu Njarðvíkingum upp 99-61. Stigahæstur í leiknum var þáverandi fyrirliði KR og varaformaður Körfuknattleikssambandsins, Einar Bollason, með 35 stig.

Þess má geta að þetta var ekki í síðasta skiptið sem þjálfari Njarðvíkinga spilaði á sparibuxunum.

Og yfir í allt annað

Ísland

2021-2022 tímabilið í Subway-deild kvenna byrjar í kvöld og því ákváðum við að kasta saman í eina afar óvísindalega samsetta spá sem er þó...

Ísland

2021-2022 tímabilið í [Insert sponsor name here]-deild karla er handan við hornið og því ákváðum við að kasta saman í eina afar vísindalega samsetta...

Ísland

Gömlu Reykjavíkurstórveldin KR og ÍR eiga sér langa sögu saman og elduðu grátt silfur lengi vel á upphafsárum körfuboltans á Íslandi en bæði lið...

Ísland

Það hefur líklegast ekki farið framhjá mörgum að Reykjavíkurveldin Valur og KR eigast við í átta liða úrslitum Domino’s deildar karla þessa dagana með...