Connect with us

gunnhildur-gunnarsdottir-hofudhoggMynd: Snæfell

Gunnhildur Gunnarsdóttir, fyrirliði Íslandsmeistara Snæfells og leikmaður íslenska landsliðsins, lenti í hörðu samstuði við Sigrúnu Ámundadóttur í Skallagrím í leik liðanna síðasta miðvikudag. Gunnhildur fór útaf eftir höggið en bað um skiptingu inn á skömmu síðar og kláraði leikinn.

Einhverjir eftirmálar virðast þó vera eftir höggið því samkvæmt Snæfell.is verður Gunnhildur ekki með liðinu í dag gegn Njarðvík og er óvíst með þáttöku hennar í landsleikjunum sem eru á næstunni.

Gunnhildur er að minnsta kosti þriðji leikmaðurinn á þessu tímabili sem missir af leikjum eftir þungt höfuðhögg. Eins og frægt er þá fékk Stefán Karel Torfason, leikmaður ÍR, þungt höfuðhögg í byrjun tímabilsins og lagði í kjölfarið skóna á hilluna en hann hafði fengið þónokkra heilahristinga á ferlinum þrátt fyrir ungan aldur. Nökkvi Harðarson, leikmaður Vestra, eyddi nóttinni á sjúkrahúsi eftir að hafa fengið slæmt höfuðhögg á móti ÍA 23. október síðastliðinn en hann hefur verið frá æfingum og leikjum síðan þá.

En það eru ekki bara leikmenn sem eru fórnarlömb höfuðhöggana því dómarinn Halldór Geir Jensson lenti í því óláni að fá olnbogaskot í höfuðið frá Corbin Jackson, þáverandi leikmanni Njarðvíkur, í leik Tindastóls og UMFN 27. október. Halldór gat ekki haldið áfram eftir höggið og kláruðu því Leifur Garðarsson og Davíð Hreiðarsson leikinn án hans.

More in Ísland