Birgir Björn er kominn aftur í Val. Mynd: Karfan.is
Valur fer inn í tímabilið sem sterkasta liðið á pappírnum. Standa þeir undir því?
9. Ármann
Þjálfari: Tómas Hermannsson
Síðast: 9. sæti í 1. deild
Það eina sem er öruggt í lífinu er skatturinn, dauðinn og að Ármann fellur á vorin.
Ármenningar féllu úr 1. deildinni á síðast degi síðasta tímabils en sökum þess að ekkert lið vildi upp úr 2. deildinni þá fá þeir að halda áfram í þeirri fyrstu. Það er reyndar spurning hvers vegna tvö lið eiga að falla úr 1. deildinni þar sem lið úr 2. deildinni vilja sjaldnast koma upp.
Ármenningar voru eina liðið í 1. deildinni í fyrra sem lék án erlends leikmanns og allar líkur á að það sama verði upp á teningnum í ár. Guðni Sumarliðason (16 stig, 7 fráköst) var þeirra besti leikmaður í fyrra en er líklegast horfinn á braut. Þeir voru fámennir í leikjum á undirbúningstímabilinu en fengu þó miðherjann Jóhann Friðriksson frá KFÍ/Vestra og var hann að skila um 11 stigum og 10 fráköstum í leik í æfingarleikjum í september.
Sigurvegarinn í þriggja stiga keppni stjörnuleiksins árið 1997, hinn 44 ára gamli Baldur Ingi Jónasson, er einnig genginn til liðs við félagið á nýjan leik eftir að hafa leikið síðasta tímabil með B-liði KFÍ í 3. deildinni. Það má færa þau rök að hann leiki enn með B-liðinu því fyrrum KFÍ leikmennirnir Leó Sigurðsson og Guðni Guðnason Jr. leika einnig með liðinu auk þess sem þjálfari liðsins, Tómas Hermannsson, lék með KFÍ um nokkura ára skeið.
Komnir: Jóhann Jakob Friðriksson (KFÍ/Vestri), Baldur Ingi Jónasson (KFÍ), Leó Sigurðsson (KFÍ/Byrjar aftur)
Farnir: Guðni Sumarliðason, Gísli Freyr Svavarsson (ÍB)
Styrkleikalistinn er huglætt mat á styrkleika liðanna á hverjum tímapunkti en er ekki spá um lokaniðurröðun deildarinnar.
Hittum við naglann á höfuðið eða erum við algjörlega út á túni? Hraunaðu yfir okkur á Facebook eða Twitter.


Ísland
Reykjavíkurrígurinn lifir
