Mynd: Karfan.is
Kapparnir í körfuboltakvöldi fóru mikinn í síðasta þætti um meinta sniðgöngu Helenu Sverrisdóttur á viðtali eftir tapleik Hauka við Snæfell á fimmtudaginn. Samkvæmt þeim neitaði hún Stöð 2 Sport um viðtal eftir leikinn og hefur í raun aldrei veitt viðtal eftir tapleik í vetur.
„Þetta er hluti af leiknum. Leikurinn er frá því stígur inn 1-2 tímum fyrir leik, hitar upp og spilar leikinn. Og þú þarft að vera, svo ég sletti, gracious loser og humble winner. Það þýðir ekki að fara í fýlu yfir því að tapa leikjum“ sagði Fannar. Jón Halldór tók í sama streng.
„Ég er í fýlu út í hana, að hún skuli gera þetta. Það vill enginn sjá neinn annan í Haukaliðinu í viðtali, nema kannski Pálínu (Gunnlaugsdóttur). Ég held að hún sé hundfúl með það sem er í gangi í Haukum. Það er einhver kergja í gangi, það hlýtur bara að vera.“
Helena var vægast sagt ekki sátt við þetta eins og sjá mátti í svörum hennar á Twitter en þar bendir hún á að það sé erfitt að neita viðtali þegar hún sé ekki beðin um það til að byrja með.
Er virkilega hægt að halda því fram í tv að ég hafi neitað að koma í viðtal?? Ég var ALDREI spurð!! Enginn kom til mín og bad um viðtal
— Helena Sverrisdottir (@HelenaSverris) January 23, 2016
Ég er mikil keppnismanneskja og hata að tapa-en ber alltaf virðingu fyrir fjölmiðlum og veit að það er partur af þessu.
— Helena Sverrisdottir (@HelenaSverris) January 23, 2016
Andri Þór Kristinsson, þjálfari Hauka, kom Helenu einnig til varnar í athugasemd undir frétt Vísis.
Ég get staðfest þetta hjá Helenu. Ég var sjálfur beðinn um viðtal eftir leik og eftir bæði post game fund liðsins og viðtalið mitt var ég spurður hvort ég gæti kallað á Helenu en þá var komið að minnsta kosti 20 mín frá leikslokum og hún komin í sturtu… Er þetta stóra málið? Ef ekki þá langar mig að spyrja hver það var sem bað Helenu um viðtal?
Myndirnar sýna Helenu ganga af velli. Ég vil taka það fram að þetta er eftir að Helena eins og aðrir í okkar liði komu saman að leikslokum og þökkuðu svo heimaliðinu og dómurunum fyrir leikinn. Nokkrir í okkar liði hrósuðu heimakonum fyrir góða frammistöðu í leiknum og það fannst mér flott. Sjálfur var ég stoltur af því hvernig okkar fólk bar sig eftir þetta tap.
Þakkir fyrir að fjalla um kvennaboltann og ná að skjóta honum svona inn á milli að. Maður þykist vita að það er ekki alltaf auðvelt að finna áhugaverða vinkla í þessu öllu saman en hér hafði farið fram flottur körfuboltaleikur þar sem margar öflugar keppniskonur tókust á og þvílík flugeldasýning frá heimakonum í glæsilegri stemmingu og umgjörð. Þá er slæmt ef einhver tilbúin viðtalsfælni Helenu sé heitasti vinkillinn að ykkar mati. Flestir sem þekkja til Helenu vita að hún leggur margt í sölurnar við að kynna kvennakörfuna og er alltaf (ég bara leyfi mér að fullyrða það) klár í slaginn þegar fjölmiðlar leita til hennar.
