Hópurinn ásamt Birgi Birgissyni, þjálfara, og Ingólfi Þorleifssyni, formanni KFÍ. Mynd: KFÍ.is
Sjö leikmenn KFÍ skrifuðu á fimmtudaginn undir samninga þess efnis að leika með félaginu á næstu leiktíð en það voru þeir Andri Már Einarsson, Björgvin Snævar Sigurðsson, Gunnlaugur Gunnlaugsson, Jóhann Jakob Friðriksson, Óskar Ingi Stefánsson, Rúnar Ingi Guðmundsson og Sturla Stígsson.
Allir þessir leikmenn léku með liðinu á síðastliðnu tímabili utan hinn ungi Rúnar Guðmundsson sem kemur beint upp úr yngri flokkum og er að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki.
Áður hafði verið greint frá að KFÍ hafði framlengt samning sinn við Birgir Örn Birgisson um að þjálfa liðið áfram og samið við Grindvíkinginn Nökkva Harðarson um að leika með félaginu í vetur.
Þetta er talsverð breyting frá því eftir þar síðasta tímabil þegar KFÍ hafði fallið úr úrvalsdeild en þá hélt félagið einungis eftir tveimur leikmönnum sem höfðu klárað tímabilið og byrjuðu með nýtt lið um haustið. Liðið endaði í sjöunda sæti í 1. deildinni í vetur með einungis 5 sigra og 16 töp en 8 leikir liðsins töpuðust með 5 stigum eða minna.
Nánar má lesa um undirskriftirnar á KFÍ.is
