Í kjölfar óánægju með frammistöðu dómara í stöku leikjum hefur orðið nokkur umræða um störf dómaranefndar. Af því tilefni langar okkur að reyna að varpa einhverju ljósi á það hvernig dómaranefnd sinnir störfum sínum ef það mætti verða til þess að hjálpa áhugamönnum um dómgæslu að skilja hvernig kaupin gerast á dómaranefndareyrinni.
Sú skoðun virðist nokkuð útbreidd að dómarar vinni í gagnrýnislausu umhverfi þar sem þeir ráði örlögum sínum sjálfir án aðkomu annarra. Þennan misskilning er nauðsynlegt að leiðrétta. Einnig virðist sá misskilningur lífsseigur að KKDÍ hafi eitthvað með niðurröðun dómara að gera. KKDÍ er hagsmunafélag dómara og kemur þar hvergi að.
Dómaranefnd hefur í stórum dráttum tvö tæki til að meta dómara, annars vegar skrifleg próf og hins vegar þrekpróf. Dómarar þreyta skrifleg próf hvert haust og þurfa að standast kröfur dómaranefndar, að öðrum kosti mun það koma niður á verkefnum þeirra. Þrekpróf eru þreytt tvisvar til þrisvar sinnum á tímabili og standist dómarar þau ekki er þeim án undantekninga ekki raðað á leiki í efstu deildum.
Það liggur í hlutarins eðli að dómaranefnd sem skipuð er þremur einstaklingum getur ekki fylgt störfum dómarahópsins eins vel eftir og ef við hefðum eftirlitsmannakerfi. Dómarar og dómaranefndir hafa bent á það um langa hríð að slíkt kerfi er nauðsynlegt bæði til aðhalds fyrir dómara og ekki síst til þess að dómaranefnd á hverjum tíma geti komið sér upp sterkari og fagmannlegri tækjum til að vinna úr. Vísir að slíku kerfi var til fyrir 10 árum eða svo, en var aflagt vegna kostnaðar. Það skal fullyrt hér að dómaranefnd og dómarar myndu fagna slíku kerfi.
Þó er það ekki þannig að dómarar eða dómaranefnd sitji með hendur í skauti og bíði eftir slíku kerfi. Dómaranefnd hefur í dag aðgang að hugbúnaði til þess að taka upp leiki og klippa þá til. Dómara instructor FIBA á íslandi hefur haft umsjón með þeirri vinnu og nú eru til vel á annað þúsund klippur með raunverulegum atvikum úr okkar umhverfi. Þessi atvik eru skoðuð að leik loknum og rædd af hreinskilni og fagmennsku, auk þess sem þessar klippur eru allar til skoðunar á vefsvæði dómara þar sem allir dómarar taka þátt í umræðum.
Vissulega gætu einhverjir sagt að þetta sé ekki utanaðkomandi aðhald en dómaranefnd kýs að líta á þetta sem einlæga viðleitni til að bæta vinnu dómara og fagmennsku.
Dómaranefnd hefur samkvæmt reglugerð sem um hana gildir, boðað til kynningar og samráðsfundar á haustin þar sem þjálfurum, dómurum og forráðamönnum félaganna er boðið að kynna sér áherslur þær sem FIBA hefur gefið út og hvernig við hyggjumst reyna að vinna þær í okkar umhverfi. Þetta teljum við kjörið tækifæri til þess að sæmræma skilning og einnig tækifæri til þess að koma hugrenningum þeirra til skila sem ekki tengjast dómgæslu beint. Skemmst er frá því að segja að áhugi þeirra sem boðið er til þessara funda hefur enginn verið.
Eitt hlutverk dómaranefndar er að auka gæði dómgæslu með þeim tækjum sem hún hefur til umráða. Vandaðir, oftast tveggja daga fundir á haustin áður en tímabilið hefst, er þar mikilvægur þáttur. Þar eru sérfræðingar í faglegum þáttum leiksins fengnir til þess að fræða og mennta dómara, vopnaðir námsefni frá FIBA. Auk þess sem færustu íþróttasálfræðingar sem völ er á hafa heimsótt þessar samkomur ítrekað. Upplegg þessara funda er nákvæmlega eins hér og annarsstaðar hjá þeim sem stunda körfuknattleik undir merkjum FIBA.
Auk haustfundar eru fundir með dómurum um mitt tímabil og fyrir úrslitakeppni þar sem farið er yfir það sem búið er og það sem framundan er með gagnrýnum hætti.
Í fyrra var tekin upp sú nýbreytni að nú geta allir tekið bóklegt dómarapróf á netinu. Kristinn Óskarsson og Jón Bender hafa hannað þetta og haldið utan um af stakri eljusemi og dugnaði. Óhætt er að segja að þetta hafi tekist framar vonum. Mikill fjöldi hefur tekið próf eftir að þetta magnaða kerfi var tekið i notkun og bindum við að sjálfsögðu vonir við að sem flestir þeirra verði virkir dómarar og að því er unnið. Þess má geta að virkir dómarar eru nú eitthvað á sjötta tuginn en ekki eru nema örfá ár síðan þeir voru varla þrír tugir. Sú vinna sem nú er unnin mun án efa skila sér í fleiri dómurum til framtíðar.
Stundum er talað um að dómarar fái ekki enga refsingu eigi þeir slakan leik og þá gjarna vísað í að þannig sé tekið á leikmönnum sem ekki finna sig þann daginn. Dómaranefnd lítur ekki svo á að dómarar verði afburðafagmenn þótt þeir eigi nokkra góða daga né heldur að þeir séu ónothæfir eigi þeir slæma daga.
Að „búa til“ dómara er langtímavinna og á þeirri vegferð skiptast á skin og skúrir með sama hætti og hjá leikmönnum. Dómaranefnd vinnur með dómurum að því að þeir bæti sig bæði til langs og skamms tíma og mörg dæmi eru um það að menn hafi verið færðir til í rönkun dómaranefndar innan tímabils.
Umræða um dómgæslu er bæði nauðsynleg og eðlileg og undan henni ætti enginn að kvarta þótt okkur sem að málaflokknum standa finnist kannski vanta upp á þekkingu þeirra sem kveða sér hljóðs. Og stundum er það því miður þannig að færri hafa áhuga á málaflokknum þegar vel gengur inni á vellinum.
Þessi grein er viðleitni okkar til að gefa áhugamönnum um bætta dómgæslu örlitla innsýn í umhverfið sem dómarar og dómaranefnd starfa í. Okkur er ljóst að alltaf er hægt að gera betur en við fullyrðum að dómaranefnd og KKDÍ vinna af heilum hug að því að bæta fagmennsku og auka færni dómara.
Dómaranefnd KKÍ
