Það hefur ekki farið framhjá neinum að New York Knicks hefur verið aðhlátursefni deildarinnar undanfarinn áratug. Að nógu hefur verið að taka. Feitir leikmenn, útbrunnar stjörnur á of háum launum og stjórnendur sem voru svo óhæfir að þeir myndu láta íslenska stjórnmálamenn líta út fyrir að vera snillinga.
Og til að setja hlutina í enn betra samhengi: Los Angeles Clippers er með betri árangur í úrslitarkeppninni á 21. öldinni en Knicks. Þessi setning ein og sér er nóg til þess að fá drauginn af Willis Reed til þess að klóra úr sér augun og kveikja í sér.
Upphaf þessarar martraðar má finna í september 2000 þegar Dave Checketts skipti Patrick Ewing til Seattle fyrir Glen Rice, Luc Longley, Travis Knight, Lazaro Borrell, Vernon Maxwell, Vladimir Stepania og fjóra valrétti. Hjarta liðsins og andlit þess út á við og þeir skipta honum fyrir Travis fokking Knight og skiptimynd.

Ha? Skipta mér? Ertu að grínast, veist þú ekki hver ég er??
Þess má geta að Rice, Longley og Knight voru allir með samning til ársins 2004 fyrir samtals 90 milljónir dollara. Ewing átti eitt ár og 20 milljónir dollara eftir af sínum samningi. Flott skipti.
Mig skal ekki undra ef Ewing hafi farið beint til einhvers Vúdú töfralæknis eftir þetta (hann er jú frá Jamica) og látið setja heiftarlega bölvun á liðið, stjórnendur þess, ættingja og gæludýr í 10 kynslóðir. En gerði hann það? Skoðum aðeins sögu Knicks eftir skiptin.
Checketts fékk það sem hann átti skilið þegar honum var sparkað innan við ári eftir skiptin og tók James Dolan alfarið við stjórnartaumunum. Ekki batnaði þó ástandið í brúnni við það því framkvæmdarstjóri félagsins, Scott Layden, kom því í gegn að kasta 100 milljónum dollara fyrir 6 ár í Allan Houston. Ég veit ekki hvað Layden hefur verið að reykja á þessum tíma en þrátt fyrir að Houston hafi verið ágætis leikmaður og fínn náungi þá var hann ekki 100 milljón dollara virði. Þar fyrir utan var Knicks eina liðið sem var að bjóða honum samning og þeir hefðu að öllum líkindum getað fengið hann fyrir helminginn af upphæðinni. Að sjálfsögðu fara hnéin á Houston að gefa sig eftir 2 ár, vafalaust eftir allt erfiðið við að bera þungu peningasekkina í bankann, og árið 2005 leggur hann skóna á hilluna. Houston fékk samt samtals 40 millur á næstum 2 árunum frá Knicks, upphæð sem taldist öll til launaþaksins.
16 leiki inn í 2001-2002 tímabilið sá Jeff Van Gundy, þjálfari Knicks, greinilega í hvað stefndi og hætti með liðið. Hann hafði verið mjög ósáttur með það þegar Ewing var skipt og ekki bætti úr skák að hafa hinn velþekkta skaphund og þjálfaratjóker, Latrell Sprewell, á æfingum á hverjum degi.
Layden var þó ekki búinn því sumarið 2002 skipti hann Marcus Camby, Mark Jackson og Nene til Denver í skiptum fyrir Antonio McDyess, Frank Williams og valrétt í 2.umferð 2003 nýliðavalsins (Maciej Lampe). McDyess spilaði heila 18 leiki fyrir félagið áður en þeir gáfust upp á honum og sendu til Phoenix, Williams var búinn að spila sig út úr deildinni 3 árum seinna og Lampe spilaði aldrei fyrir Knicks. Camby var hins vegar fastamaður í varnarliðum ársins frá 2005 til 2008 og var einnig valinn varnarmaður ársins 2007.
Sumarið 2003 sendir Layden svo Latrell Sprewell til Síberíu Timberwolves í skiptum fyrir sykurpúðan Keith Van Horn og skiptimynd.
Ef ástandið var slæmt í tíð Layden þá átti það bara eftir að fara versnandi. Í desember 2003 ákveður Dolan að reka Layden og ræður í stað hans Isiah Thomas. „Úr öskunni í eldinn“ er málsháttur sem á engan vegin við um þetta atvik. „Úr öskunni í fimm ára langt Napalm- og sýrubað á meðan salti og bensíni er stanslaust stráð yfir sárin“ hentar betur.
5.janúar 2004 ákveður Thomas að skipta Antonio McDyess, Howard Eisley, Charlie Ward, Maciej Lampe, réttinum á Milos Vujanic, tveimur valréttum í fyrstu umferð og skiptimynt til Suns fyrir Cezary Trybanski og rotnandi leyfunum af Penny Hardaway. Já og Stephon „The Steph Infection“ Marbury. Af öllum heimskulegu ákvörðunum sem teknar voru á þessu bölvunartímabili þá var þessi sú versta. Ekki það að Knicks hafi látið einhvað sérstakt frá sér heldur snýst þetta meira um hvað þeir fengu til baka. Að fá Starbury í liðið þitt til þess að bæta getuleysi þess er eins og að ætla að lækna herpesið hjá þér með því að stinga tólinu ofan í fötu fulla af saltpéturssýru.
Mánuði seinna fer að renna upp fyrir Isiah að Van Horn hefur vaxið tvær kúlur í hnetupokann sinn og er í kjölfarið farinn að spila eins og maður. Það gekk náttúrulega ekki að gaurinn með hárgelið og í háu sokkunum væri að skyggja á restina af ruslinu í liðinu þannig að Isiah sendi hann til Milwaukee í skiptum fyrir nafna sinn Tim Thomas, sem eins og flestir vita hefur aldrei átt í hættu á að spila eins og maður.
Partur I – Partur II – Partur III
Höfundur er sárþjáður og bitur Knicks aðdáandi síðan 1992.
